ÖÐRUVÍSI LEIKLIST
Þessi öðruvísi leiklist sem við tölum um byggist að mörgu leyti á leiklistarfræðum sem kallast Leikhús hinna kúguðu og fjallar mikið um vald og valdhafa. Vald er eitthvað sem við rekum okkur öll á í okkar daglega lífi og eitthvað sem við höfum öll að einhverju leyti.
Þetta öðruvísi leikhús snýst því mikið um að kynnast okkur sjálfum betur og hvernig við tengjumst öðrum í umhverfinu. Á sama tíma snýst það um að skoða samfélagið sem við lifum í með því að leika það sem grípur athygli okkar og ef það er eitthvað sem við erum ósátt við - breyta því sem við viljum breyta - fyrst í leikjum og æfingum sem hópur - og svo jafnvel seinna koma skoðunum okkar á framfæri með leikrænum tilburðum á öðrum vettvangi.
Sköpunargleðin er alltaf höfð að leiðarljósi og mikil áhersla lögð á að allir fái að vera með í að ákveða verkefnin sem við tökum okkur fyrir hendur. Við erum í þessu af því að þetta er skemmtilegt og maður er alltaf að upplifa eitthvað nýtt og spennandi.AUGUSTO BOAL OG PAULO FREIRE
Augusto Boal (1931-2009) og Paulo Freire (1921-1997), tveir gagnrýnir kennslufræðingar (critical pedagogy theorists) frá Brasilíu, unnu við að kenna fátækum bændum að lesa og út frá þeirri reynslu sannfærðust þeir um að þörf væri á pólitískri vitundarvakningu meðal hinna undirokuðu.
(Augusto Boal)

Freire einbeitti sér annars vegar að þeim kúgandi áhrifum sem menntakerfið getur haft á einstaklinga og hins vegar að framúrstefnulegum kennsluaðferðum sem gætu ýtt undir gagnrýna hugsun og upplýsta pólitíska og sögulega vitund nemanna. (Bentley, 1999)
Boal þróaði hinsvegar ýmsar leikhúsaðferðir sem hægt er að nota á almenningsvettvangi til að ýta undir pólitíska vitund og gagnrýna hugsun. Boal lagði mikla áherslu á leikhús sem aðferð til að ná fram duldum viðhorfum þátttakenda, dýpka skilning þeirra á sjálfum sér og öðrum, læra um valdaskiptinguna í þjóðfélaginu og heiminum öllum, og að lokum ná fram ákveðinni pólitískri virkni með það að markmiði að jafna valdaskiptinguna og bæta þjóðfélagið. (Paterson, 2005)
Leikhúsaðferðir Augusto Boal ýta undir gagnrýna hugsun, frumkvæði og sköpunargáfu þátttakenda. Leiklistaraðferðirnar bjóða líka þátttakendum upp á þann möguleika að koma hugmyndum sínum á framfæri á tjáningarformi sem hentar að mínu mati mörgum betur heldur en greinaskrif í blöð og veraldarvef, ræðuhöld á mótmælafundum, eða þátttaka í pólitískum flokkum. Hópar sem finna sér ekki rödd á ofartöldum hefðbundnum pólitískum miðlum fá hér tækifæri til að tjá sig um pólitík á leikrænan hátt.
Aðferðirnar snúast um að draga fram á myndrænan hátt þau mörgu álitamál sem hrærast í samfélaginu. Skopmyndir eru mikið notaðar til að draga fram hvernig fordómar, misskilningur og vanþekking liggja oft að baki deilna. Áherslan er svo sett á lausn deilunnar með því að bjóða áhorfendum að taka beinan þátt í leit mögulegra lausna. Leikarar og áhorfendur gefa til verksins á sama tíma og ýmis áður ómeðvituð hugsana- og hegðunarmynstur eru dregin upp á yfirborðið. Umræður fylgja á eftir hverju verki þar sem rætt er með leikurum og áhorfendum hvað megi læra af verkinu og þeim lausnum sem bornar hafa verið á borð. (Boal, 2004)
Leikhúsaðferðir hinna kúguðu sáu fyrst dagsins ljós í Brasilíu árið 1971 í formi „Dagblaða-leikhúss“ (Newspaper theatre). Dagblaðaleikhús er 12 skrefa kerfi til að byggja leikþátt byggðan á grein úr dagblaði eða einhverju öðru rituðu gagni t.d. fundarskýrslu frá fundi einhvers stjórnmálaflokks, texta úr Biblíunni, stjórnarskrá einhvers lands, mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna, eða hverju sem er.
„Umræðu-leikhús“ (Forum theatre) varð til í Perú árið 1973 þar sem Boal var að vinna við lestrarkennslu. Forum leikhús er framkvæmt þannig að leikhópurinn býr til stutt leikrit þar sem aðalpersónan er föst í kúgandi umhverfi umkringd aðilum sem brjóta hana niður eða koma í veg fyrir að réttindi hennar séu almennilega virt. Áhorfs-leikendurnir (spect-actors) horfa fyrst á leikritið í fullri lengd en er svo boðið að grípa inn í leikritið hvar sem þeir vilja,taka stöðu aðalpersónunnar og reyna nýjar aðferðir til að brjótast út úr þessum kúgandi aðstæðum.
Leikhúsaðferðir hinna kúguðu urðu fleiri en Boal notaði fyrst „Ósýnilegt leikhús“ (Invisible theatre) í Argentínu. Boal lýsir ósýnilegu leikhúsi sem aðferð til að taka beinan þátt í samfélaginu með þvi að strika undir eitthvað samfélagslegt vandamál og vekja upp rökræður hvað málið varðar. Aðferðin er að nota örstutt leikrit á almannafæri þar sem einhver/jir kúga einhvern eða einhverja án þess að láta nokkurn vita að þar sé leikrit í gangi. Aðrir leika þá mögulega vegfarendur sem skipta sér af kúguninni og láta í ljós róttækar skoðanir – tilgangurinn er sá að fá aðra vegfarendur sem vita ekki að það sé leikrit í gangi að taka þátt í rökræðunni eða að minnsta kosti vekja þá til umhugsunar um hin ýmsu málefni. Boal skrifar: „INVISIBLE THEATRE is the penetration of fiction into reality and of reality into fiction, which helps us to see how much fiction exists in reality, and how much reality exists in fiction“. (Boal, 2004)
Boal þróaði „Myndaleikhús“ (Image-theatre) aðferðir sýnar í Kolumbíu, Venezuela, og Mexíkó þar sem aðferðin var aðallega notuð til að sætta innfædda og spánarættaða íbúa þessara landa. Mynda leikhús leyfir þátttakendum að tjá sig algjörlega án orða. Jókerinn biður þá um sjálfboðaliða úr hóp áhorfenda til að móta ákveðið myndform kúgunar t.d. heimilisofbeldi úr líkömum paranna - að búa til einskonar mannlegan skúlptúr af kúguninni. Jókerinn biður svo um fleiri og fleiri sjálfboðaliða til að breyta og bæta þennan skúlptúr. Aðeins hendur, engin orð eru leyfð við mótun skúlptúranna. (Boal, 2004)
(UPEACE, Costa Rica, 2008)
„Regnbogi Langanana“ (Rainbow of Desire) varð til í Evrópu til að taka á persónulegri málefnum. Regnbogi Langanana er leikhúsaðferð notuð til að greina reynslusögur þátttakenda af kúgun. Þolenda er þá boðið að leika fyrir hópinn hvað kom fyrir hann eða hana. Þolandi lýsir því sem kom fyrir sig og hvernig aðrir aðilar létu í þessu tilfelli – aðrir úr hópnum reyna þá með hjálp þolanda að leika hina aðilana í sögunni. Hópurinn reynir svo að greina þær tilfinningar og lífsviðhorf sem bæði þolandi og aðrir aðilar í sögunni upplifa í atvikinu. Þessi æfing snýst um að finna innri lögregluna í hverjum aðila þ.e.a.s. hvaða hugsanamynstur, tilfinningar og lífsviðhorf búa að baki hegðun hvers og eins. (Boal, 2004)
„Löggjafarleikhúsið“ varð svo til í Brasilíu þegar Boal fór á þing en margar lagasetningar sem seinna voru samþykktar á þingi áttu sér rætur í þessum leiklistasamkomum. Löggjafarleikhús byggir á öllum hinum leikhúsaðferðum hinna kúguðu. Eftir Forum-leikhúsviðburð er þátttakendum gefið tækifæri á að koma með hugmyndir að lögum tengdum efni leikþáttarins og svo fær einn þátttakandi í einu að breyta lögunum eins og honum þykir best. Það er svo kosið um hvort hópurinn vilji halda breytingu strax eftir að hún er gerð eða ekki. Niðurstöðum er safnað og notaðar til að setja þrýsting á hið raunverulega löggjafarvald. (Boal, 2004)
Boal skrifar að hann hafi haldið að þessar leiklistaraðferðir myndu henta vel fyrir Suður Ameríku en þær eru nú notaðar í yfir 70 löndum. Þó aðferðirnar hafi fyrst verið þróaðar til að hjálpa eru þær í dag notaðar á götum úti, í skólum, kirkjum, verkalýðsfélögum, venjulegum leikhúsum, fangelsum, og fleiri stöðum. Hann sér aðferðirnar sem einskonar sameiginlegt tungumál sem fólk getur skilið allstaðar í heiminum en þær eru tiltölulegar auðveldar í framkvæmd og hagnýtar í réttindabaráttu ýmissa hópa. (Boal, 2004)
(Theatre of the Oppressed, Nepal)
Í KRASSANDI leikhópnum munum við prófa allar leikhúsaðferðir Boal sem ég hef nefnt hér að ofan en mér þykir líklegt að umræðu- , ósýnilegt, og mynda-leikhús munu vera vinsælustu aðferðirnar hjá okkur.
HEIMILDIR
Texti úr ritgerð Sigrúnar Birtu Viðarsdóttur um Leikhús hinna kúguðu.
Boal; Augusto (1979) Theater of the Oppressed, Pluto Press, London
Boal; Augusto (2002), Games for Actors and Non-actors, Routledge - Taylor & Francis group, London and New York
Boal; Augusto (2004) The International Theatre of the Oppressed Organization, Rio de Janeiro, Brazil. Online at: http://www.theatreoftheoppressed.org/
Paterson; Doug, (Nóvember, 2005) A Brief biography of Augusto Boal, Pedagogy and Theatre of the Oppressed website,. Sótt 05.12.09 á: http://www.ptoweb.org/boal.html
Bentley; Leslie (Desember, 1999) A Brief Biography of Paulo Freire, Pedagogy and Theatre of the Oppressed website,. Sótt 05.12.09 á: http://www.ptoweb.org/freire.html
Myndir frá KRASSANDI leikhópnum, úr sýningu nemenda nemenda í Friðarháskólanum í Kosta Ríka (UPEACE) 2008 þar sem notast var við aðferðir Leikhúss hinna kúguðu, og að láni af vefsíðunum: http://www.theatreoftheoppressed.org/en/index.php?useFlash=0, http://guaciara.wordpress.com/2009/05/05/boal/
og http://www.mindgap.org/index.php/2008/06/augusto-boal-theater-and-sensitive-thinking/